Annað skref...
Annað skrefið - að lofa leitarvélum að finna síðuna og láta kollega vita af síðunni! Nú er sá áfangi í höfn! Hvert er næsta skref?
Fyrir einhverjum árum var mér boðið að kenna sértæka kennslufræði píanósins í Listaháskóla Íslands. Svarið mitt var já, en ég verð að viðurkenna að svarið var ekki eingöngu komið til vegna hagsmuna nemenda, heldur líka minna eigin hagsmuna, nefnilega að hafa tækifæri sjálfur til að læra meira! Eða eins og hinn frægi fiðluleikari Itzak Perlman sagði: "láttu aldrei tækifæri til að kenna renna úr greipum þér; með því að kenna öðrum, ertu að kenna sjálfum þér" (www.azquotes.com/quote/797281)
Ég komst fljótt að því að engar bækur voru til um kennslufræði píanósins í bókasafni Listaháskólans, en nokkrar þó um píanóspil og tækni. Hvað þá að eitthvað væri til á íslensku! Hér var tækifæri til að taka til hendinni og bæta úr brýnum skorti. Í tengslum við kennslufræðina fór ég að safna allskyns heimildum og bókum og skrifa hjá mér ýmislegt sem mér fannst áhugavert.
Á endanum sótti ég um styrk úr endurmenntunarsjóði FÍH til verksins og nú er komið að því að koma frá sér einhverri afurð. Afurðin er ekki fullgerð, því hér er um yfirgripsmikið fag og fjölbreytt efni að ræða! Niðurstaðan varð á endanum sú að fremur en að gefa út bók væri skynsamlegra að byrja á að gera vefsíðu. Hún kallar á knappari texta, henni er hægt að breyta og bæta við smátt og smátt, fá umsagnir og ráðleggingar frá öðrum, og tengja við myndbönd.
Verkið er engan veginn fullgert, það eru mörg viðfangsefni kennslufræðinnar sem ég hef ekki komist í að gera grein fyrir eða að rannsaka að nokkru marki. Þetta er heldur ekki vísindalegt rannsóknarverkefni, fremur samansafn af alls kyns tilvísunum og efni sem ég vona að hugsanlega geti gagnast einhverjum sem hefur áhuga á faginu.
Það eru mörg svið sem þyrfti að skoða ef þetta væri heildarúttekt á faginu.
Sem dæmi mætti nefna umfjöllun um námsefni, hvernig taka skuli á dyslexiu, einhverfu, ADHD og öðru í þeim dúr, fjalla um helstu öpp og hvernig tæknin getur hjálpað, almenn líkamsbeitin, body mapping, Alexander tækni, Feldenkreis og þess háttar, helstu kvillar sem geta þjáð píanóleikara og hvernig best er að forðast þá. Spuni og að leika eftir eyra. Svona mætti lengi telja enn og allt þetta ætti að vera hluti af námsefni píanókennara framtíðarinnar!